Námstefna Flatar 4. október

image_pdfimage_print

Namstefna_Flatar_2014_myndLaugardaginn 4. október var haldin námstefna Flatar, félags stærðfræðikennara, en hún er árviss viðburður. Hún hefur í flestum tilvikum verið haldin utan höfuðborgarsvæðisins en í ár var gerð tilraun til að halda hana innan þess og fór hún fram í nýju og glæsilegu húsnæði Menntaskólans í Mosfellsbæ.

Á námstefnunni var  margt í boði fyrir stærðfræðikennara og annað áhugafólk um stærðfræðikennslu á öllum skólastigum.

Einstaklingar á vegum Fab Lab smiðjunnar í Breiðholti kynntu starfsemi sína. Bjarnheiður Kristinsdóttir sagði frá fjölþjóðlegu samstarfsverkefni sem hún tekur þátt í varðandi vinnu nemenda með þögul myndbönd tekin upp í geogebru. Vilhjálmur Þór Sigurðsson kynnti nýjan kennsluvef (Jafna línu) sem hann vinnur að og er styrktur af sprotasjóði. Margrét S. Björnsdóttir var með fyrirlestur og vinnustofu um rúmfræði og listir þar sem þátttakendur gátu spreytt sig á verkefnum í anda M. C. Escher. Valgarð Már Jakobsson kynnti gerð kennsluefnis fyrir iPad og sá um samræður um notagildi spjaldtölva í stærðfræðikennslu. Ósk Dagsdóttir var með skapandi stærðfræði þar sem hún ræddi það hvernig hvetja má nemendur til þess að vera skapandi, opnir og áræðnir í stærðfræðinámi í grunnskólum. Kristján Einarsson kynnti kennsluefni sem kennarar í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ hafa sett saman (Föll og ferlar) en það er hluti af verkefni sem styrkt er af þróunarsjóði námsgagna.  Einnig voru samræður um stærðfræðikennslu skv. nýrri aðalnámskrá framhaldsskólanna og leiðsagnarmat eins og það birtist í FMos.  

Í lok ráðstefnunnar voru mjög gagnlegar og góðar umræður um framtíð Flatar.

Fleiri myndir og nánari upplýsingar má finna á nýrri heimasíðu Flatar: http://flotur.net/