Grundaskóli – Dagur stærðfræðinnar 6. febrúar 2015
Í tilefni af degi stærðfræðinnar 6. febrúar var þrautadagur í unglingadeildinni.
Nemendur byrjuðu með sínum umsjónarkennara í bekkjunum og þar leystu þeir þrautir inn á vefnum hjá nams.is. Þetta virkaði vel sem upphitun og mörgum nemendum fannst þetta mjög gaman og héldu síðan áfram í Ipad spjaldtölvunum. Við erum með gagnvirkar töflur í 3 stofum og skjávarpa í tveimur stofum. Náðum í einn lausan skjávarpa og einn árgangur fór saman á félagssvæði nemenda. Samtals voru þetta 8 bekkir um 180 nemendur (3 x 8.bekkur + 2 x 9. bekkur + 3 x 10. bekkur).
Leikirnir sem við völdum inn á nams.is – krakkasíður – stærðfræði voru:
- Þríhyrningarnir
- Ferhyrningarnir
- Talnaferningurinn
- Brúsarnir
- Þrír í röð (sem vakti mikla lukku og einn kennarinn setti upp keppni í árgangnum sem heppnaðist frábærlega)
Eftir það gátu nemendur flakkað á milli bekkjarstofa og valið að spila, leysa mismunandi þrautir, lita munstur og fleira. Átta mismunandi tilboð:
– Ipadar – nams.is og fleira
– Mismunandi kubbaþrautir
– Spil – yatzy – þrír í röð – pinnaspil – þrautir
– Þrautir með krónupeningum – spil frá Malavi (þrautir úr þrautaheftunum á nams.is)
– Spil – La Boca – Ubongo – Othello – Seauence
– Tefla – frammi á ganginum erum við með borð og þar vorum við með 5 töfl
– Lita munstur – Mandalas og kubbamunstur (rúmfræðipælingar)
– Sudoku og völundarhús prentað út af vefnum gratisskole.dk
Nemendur höfðu mismikið úthald en flestir virtust glaðir og ánægðir með þessa tilbreytingu. Sumum fannst þetta truflun frá ”alvörunámi”.Í lokin fylltu nemendur út matsblað og fylgir hér mat þriggja nemenda á því hvað þeim fannst um daginn.
1. Það er gott að hafa einn svona dag til að sýna hversu breið stærðfræðin er.
2. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt og öðruvísi og vonandi gerum við þetta aftur.
3. Svona þrautir og leikir auka rökhugsun – þrátt fyrir það þá tengist þetta ekki námi.